Ný stefnumótun í íþróttamálum var kynnt í gær en hún var unnin í samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins og íþróttanefndar ríkisins.
Virk þátttaka og aðgengi allra að íþróttastarfi eru áframhaldandi leiðarstef í íþróttastefnu stjórnvalda en í nýju stefnunni er einnig lögð sérstök áhersla á nánara samstarf innan íþróttahreyfingarinnar, þátttöku ungmenna með annað móðurmál en íslensku og jafnrétti.
„Grunnur íþróttastarfs í landinu er traustur og aðstaða til íþróttaiðkunar góð og það er kappsmál okkar allra að halda áfram á þeirri braut. Með nýrri íþróttastefnu erum við að skilgreina þau forgangsverkefni sem við viljum vinna að næstu árin og þar horfum við einkum til þriggja þátta, að tryggja gott aðgengi fyrir iðkendur óháð uppruna þeirra og aðstæðum, að umhverfi íþróttanna sé öruggt fyrir iðkendur og starfsfólk og svo að styrkja faglega umgjörð íþróttastarfs í landinu,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Stefnan sem nú var kynnt byggir á endurskoðun fyrri stefnu sem í gildi var frá 2011-2015. Liður í þeirri endurskoðun voru fundir með hagsmunaaðilum en auk þess voru drög stefnunnar kynnt í samráðsgátt stjórnarráðsins í vetur. Ný íþróttastefna mun gilda frá 2019-2030 en fyrirhugað er að hún verði endurmetin árið 2024.