Ný markamaskína á Selfoss

Mallory Olsson. Ljósmynd/UCF Knights

Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við bandaríska framherjann Mallory Olsson til eins árs.

Olsson, sem verður 23 ára í vor, kemur til Selfoss úr bandaríska háskólaboltanum en hún skoraði fimm mörk fyrir lið UCF háskólans í Flórída á síðasta tímabili.

Þessi hávaxni framherji mun fylla skarðið sem Brenna Lovera skilur eftir sig hjá félaginu en Lovera skoraði 21 mark í 34 leikjum fyrir Selfoss síðustu tvö tímabilin og var meðal annars markadrottning úrvalsdeildarinnar sumarið 2021.

Selfoss hefur keppni í Lengjubikarnum á morgun, laugardag, þegar liðið heimsækir Íslandsmeistara Vals að Hlíðarenda.

Fyrri greinHugrún Birna með gull á Reykjavíkurleikunum
Næsta greinTómas tekur við veitingarekstrinum á Hótel Selfossi