Ný hlaupaleið í Brúarhlaupinu

Nú er ekki lengur hlaupið á brúnni, heldur undir brúna. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hið árlega Brúarhlaup á Selfossi fer fram á morgun, laugardaginn 6. ágúst. Hlaupavegalengdir eru 10 km, 5 km, 3 km skemmtiskokk ásamt 800 m Sprotahlaupi fyrir krakka 8 ára og yngri. Einnig fer fram keppni í 5 km skemmtihjólreiðum. Það er frjálsíþróttadeild Umf. Selfoss sem stendur fyrir hlaupinu að venju.

Hlaupið verður á nýrri hlaupaleið innanbæjar á Selfossi, ræst verður við Heilbrigðisstofnun Suðurlands og hlaupið niður með Ölfusá og síðan með Suðurhólunum og inn í bæinn. Allar hlaupaleiðir eru löggildar og mældar upp af viðurkenndum aðila og flögutímataka í öllum vegalengdum.

Skráning fer fram á hlaup.is og í Landsbankanum á Selfossi meðan forskráning er í gangi, en einnig á hlaupadag frá kl. 9 í Landsbankanum á Selfossi. Forskráningu lýkur á netinu á hlaup.is, í dag kl. 16.

Tímasetningar og staðsetningar
• Hlauparar í 10 km verða ræstir kl. 11:30.
• Hlauparar í 5 km hlaupi verða ræstir kl. 12:00.
• Keppendur í 5 km hjólreiðum verða ræstir kl. 11.
• Keppendur í 3 km skemmtiskokki verða ræstir í miðbæjargarði Selfoss kl. 11:30.
• Keppendur í 800m Sprotahlaupi verða ræstir í miðbæjargarði Selfoss kl. 12:30.

Allir þátttakendur koma í mark í Sigtúnsgarðinum í miðbæ Selfoss og fá þeir frítt í sund eftir hlaup, í boði Sveitarfélagsins Árborgar.

Fyrri greinStuðlabandið gerir allt vitlaust í Brasilíu
Næsta greinGengið í kringum miðbæinn