Ný hlaupaleið í Grýló

Ný hlaupaleið verður hlaupin þegar Grýlupottahlaupið á Selfossi hefst á morgun, laugardag. Gamla leiðin hefur verið hlaupin frá árinu 1968.

Hlaupið er rótgróið í bæjarlífinu á Selfossi en það hefur verið hlaupið allar götur síðan 1968 – og alltaf sama leiðin þar til nú.

Helgi Sigurður Haraldsson, formaður frjálsíþróttadeildar Selfoss, kynnti nýju hlaupaleiðina á aðalfundi deildarinnar síðastliðinn þriðjudag. Hingað til hefur verið hlaupið frá íþróttavellinum austur Engjaveginn að Grýlupottunum við Gesthús og sömu leið til baka.

Helgi sagði á fundinum að þessi breyting væri gerð af öryggisástæðum þar sem ekki væri lengur óhætt að hlaupa á sjálfum Engjaveginum til baka. Tillitsleysi ökumanna hafi valdið því að í fyrra hafi tvívegis legið við slysi. Þá séu stórar helgar framundan á Selfossi þar sem búast má við mikilli umferð á svæðinu, t.d. á kjördag.

Nýja leiðin er mun öruggari og jafn löng og sú fyrri, u.þ.b. 850 metrar. Ræst er við nýju stúkuna á Selfossvelli, hlaupið útaf vallarsvæðinu meðfram Engjaveginum í austur, að Grýlupottunum við Gesthús og áfram eftir malarstíg áður en beygt er til hægri og endað inni á nýja frjálsíþróttavellinum. Lokaspretturinn er 100 m langur á hlaupabrautinni á vellinum.

Eins og áður er hlaupið sex laugardaga í röð en fjögur bestu hlaupin telja hjá hverjum keppanda í samanlagðri keppni í nokkrum aldursflokkum. Skráning fer fram í Tíbrá og hefst kl. 10:30 en hlaupið er ræst kl. 11.

Fyrri greinRúmlega eitthundrað atkvæði komin í kassana
Næsta greinNý námskeið í Jógasetrinu