Nú lágu Þórsarar í því

Callum Lawson var stigahæstur Þórsara með 21 stig og 13 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn fékk skell í leik tvö í einvíginu gegn Þór Akureyri í úrslitakeppni úrvalsdeildar karla í körfubolta á Akureyri í kvöld.

Leukurinn var jafn í 1. leikhluta en Þór Akureyri náði forystunni í 2. leikhluta og leiddi 48-43 í hálfleik. Heimamenn áttu svo frábæran kafla í 3. leikhluta á meðan Þorlákshafnarliðið átti í vandræðum í sókninni og í upphafi 4. leikhluta var staðan orðin 74-58. Þór Þ náði að minnka muninn niður í 8 stig á lokakaflanum en nær komust þeir ekki og Þór Akureyri fagnaði að lokum 93-79 sigri.

Staðan er því 1-1 í einvíginu og liðin mætast næst í Þorlákshöfn á sunnudag. Þrjá sigra þarf til þess að komast í undanúrslitin.

Callum Lawson var stigahæstur Þórsara með 21 stig og 13 fráköst en Larry Thomas og Styrmir Snær Þrastarson skoruðu báðir 20 stig. Emil Karel Einarsson skoraði 11 stig, þannig að þessir fjórir leikmenn skoruðu 91% stiga Þórsara.

Tölfræði Þórs: Callum Lawson 21/13 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 20/9 fráköst, Larry Thomas 20/6 fráköst, Emil Karel Einarsson 11, Davíð Arnar Ágústsson 3, Halldór Garðar Hermannsson 2, Ragnar Örn Bragason 2.

Fyrri grein„Ég vona að þið skiljið þetta og styðjið okkur áfram“
Næsta greinSelfoss vann í markaleik