Norðangarri í Frystikistunni

Kvennalið Hamars fékk Þór frá Akureyri í heimsókn í Frystikistuna í Hveragerði í 1. deildinni í körfubolta í dag. Gestirnir höfðu meðbyr og sigruðu 59-74.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Hamar leiddi í leikhléi, 36-35. Þriðji leikhluti var góður hjá Þórsurum sem lögðu grunninn að sigrinum þar en staðan var orðin 48-59 þegar síðasti fjórðungurinn hófst. Þar bættu gestirnir örlitlu við forskotið og sigruðu að lokum 59-74.

Þórunn Bjarnadóttir var best í liði Hamars og Helga Sóley Heiðarsdóttir átti sömuleiðis fínan leik. Samtals skoruðu þær 40 stig og tóku 21 frákast en þessum tölum skiptu þær nokkuð jafnt á milli sín.

Hamar er áfram í 6. sæti deildinnar með 4 stig að loknum fjórtán leikjum.

Tölfræði Hamars: Þórunn Bjarnadóttir 20/11 fráköst, Helga Sóley Heiðarsdóttir 20/10 fráköst, Ragnheiður Magnúsdóttir 10/8 fráköst, Sóley Gíslína Guðgeirsdóttir 3, Gígja Marín Þorsteinsdóttir 3/5 fráköst, Margrét Hrund Arnarsdóttir 3/4 fráköst, Fríða Margrét Þorsteinsdóttir 4 fráköst.

Fyrri greinLeikurinn búinn í hálfleik
Næsta greinSelfoss fékk skell – Hanna komin út á gólfið