Njarðvík fór uppfyrir Þórsara

Glynn Watson var stigahæstur Þórsara með 24 stig. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í annað skiptið í vetur tókst Íslandsmeisturum Þórs ekki að vinna Njarðvík en liðin mættust í Þorlákshöfn í kvöld í úrvalsdeild karla í körfubolta.

Liðin skiptust á um að hafa forystuna allan 1. leikhlutann en í 2. leikhluta sigu Njarðvíkingar framúr. Þeir komust í 35-45 en Þór náði að klóra í bakkann á lokamínútum fyrri hálfleiks og staðan var 47-49 í leikhléi.

Gestirnir voru sterkari í seinni hálfleiknum, þeir byrjuðu hann á 17-2 áhlaupi og komust í 51-66. Þórsarar áttu ekki afturkvæmt eftir það, þrátt fyrir ágætar rispur inn á milli en munurinn varð minnstur átta stig í upphafi 4. leikhluta, 71-79. Þá stigu Njarðvíkingar á gjöfina og sigruðu að lokum 92-109.

Glynn Watson átti góðan leik fyrir Þór, skoraði 33 stig og sendi 6 stoðsendingar, en framlag annarra leikmanna var mun lægra.

Með sigrinum lyfti Njarðvík sér uppfyrir Þór í 2. sætið. Þór er í 3. sæti en bæði liðin eru með 16 stig.

Tölfræði Þórs: Glynn Watson 33/6 stoðsendingar, Daniel Mortensen 24/6 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 16, Luciano Massarelli 8/5 fráköst/5 stoðsendingar, Ronaldas Rutkauskas 6/10 fráköst, Emil Karel Einarsson 3/5 fráköst, Ragnar Örn Bragason 2/4 fráköst.

Fyrri greinHamar með sex leikmenn á skýrslu
Næsta greinÞrjár flugeldasýningar í dag