Njarðvík tryggði sér oddaleik

Hamar og Njarðvík munu mætast í oddaleik á þriðjudagskvöld um hvort liðið fer í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn í kvennakörfunni.

Liðin mættust í Njarðvík í dag og þar hafði heimaliðið sigur eftir hörkuleik, 79-70.

Njarðvíkingar skoruðu fyrstu sex stig leiksins og leiddu allan fyrsta leikhluta. Staðan að honum loknum var 22-15. Hamarsliðið kom til baka í upphafi 2. leikhluta og komst yfir, 24-25. Njarðvík tók þá á sprett og náðu níu stiga forskoti fyrir hálfleik, 42-33.

Hamar byrjaði vel í seinni hálfleik og náði 14-4 leikkafla í upphafi. Hamar komst yfir, 46-47, en Njarðvík svaraði fyrir sig með 9-2 kafla og náðu aftur sex stiga forskoti. Staðan var 59-54 að loknum 3. leikhluta.

Síðasti fjórðungurinn var æsispennandi. Hamar jafnaði 65-65 þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum en Njarðvíkingar kláruðu leikinn á vítalínunni. Þær grænu settu niður átta vítaskot á lokamínútunni og tryggðu sér oddaleik í Hveragerði á þriðjudaginn.

Jaleesa Butler átti stórleik fyrir Hamar, skoraði 36 stig og tók 12 fráköst, en það dugði ekki til. Slavica Dimovska skoraði 13 stig og sendi 8 stoðsendingar og Fanney Guðmundsdóttir skoraði 11 stig.