Níu styrkir á Suðurland

Níu styrkir bárust inn á sambandssvæði HSK þegar úthlutað var úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ á dögunum. Samtals var veitt tæpum 800 þúsund krónum í verkefni á Suðurlandi.

Sjóðurinn veitir m.a. styrki til félags- og íþróttastarfs ungmennafélagshreyfingarinnar með því að auka menntun og þekkingu félaga innan hreyfingarinnar á íþróttagreinum, þjálfun, félagsmálum og félagsstarfi.

Rétt til styrkveitingar úr sjóðnum eiga allir félagar í ungmennafélögum sem eru virkir í starfi og hafa uppáskrift síns félags eða sambands til að afl a sér aukinnar þekkingar á sínu sérsviði sem gæti nýst viðkomandi félagi, sambandi og ungmenna-félagshreyfingunni í heild. Einnig eiga stjórn og nefndir UMFÍ, héraðssambönd, ungmennafélög og deildir innan þeirra rétt á að sækja um styrk úr sjóðnum.

49 styrkir voru veittir úr sjóðnum að upphæð 5.104.000 kr. Hæsta styrkinn á Suðurlandi fékk frjálsíþróttadeild Umf. Selfoss, vegna stofnunar frjálsíþróttaakademíu Suðurlands, 150.000 krónur.

Umf. Selfoss fékk 100 þúsund króna styrk vegna 80 ára afmælis félagsins og annan jafnháan vegna þjálfararáðstefnu. Fimleikadeild Umf. Selfoss fékk sömu upphæð vegna fimleikaakademíu og Íþróttafélagið Mílan fékk einnig 100 þúsund króna styrk vegna stofnunar nýs félags. Þá fengu fimleikadeildir Þórs og Selfoss sitthvorar 100 þúsund krónurnar vegna dómara- og þjálfaranámskeiða.

Knattspyrnufélag Rangæinga, handknattleiksdeild Selfoss og fimleikadeild Selfoss fengu styrki á bilinu 36-50 þúsund króna vegna þjálfaranámskeiðs og gestaþjálfara.

Fyrri greinGuðmundur Ármann: Illa farið með fé sveitarfélaga?
Næsta greinBjörgunarsveitir að störfum á Hellisheiði