Níu ný héraðsmet á unglingameistaramótinu í frjálsum

Lið HSK/Selfoss varð Íslandsmeistari í flokki 16-17 ára pilta. Á myndinni eru (f.v.) Goði Gnýr Guðjónsson, Benjamín Guðnason, Sebastian Þór Bjarnason, Niklas Þór Grétarsson og Haukur Arnarsson. Auk þeirra skipuðu liðið þeir Einar Árni Ólafsson, Hjalti Snær Helgason og Sindri Freyr Seim Sigurðsson. Ljósmynd/Dýrfinna Sigurjónsdóttir

Lið HSK/Selfoss varð í 3. sæti í heildarstigakeppni Unglingameistaramóts Íslands í frjálsum íþróttum sem fram fór í Kaplakrika í Hafnarfirði um síðustu helgi.

HSK/Selfoss hlaut 301 stig og var aðeins 4,5 stigum á eftir Breiðabliki sem varð í 2. sæti en ÍR-ingar sigruðu með 498,5 stig.

HSK/Selfoss varð Íslandsmeistari í einum flokki, það er flokki 16-17 ára pilta. Uppskera Sunnlendinga á mótinu var ríkuleg. Alls voru 22 Íslandsmeistaratitlar í húsi, tíu silfurverðlaun og tíu bronsverðlaun.

56 ára gamalt met féll
Eva María Baldursdóttir varð Íslandsmeistari í hástökki í flokki 16-17 ára stúlkna með stökk upp á 1,78 sm. Hún bætti sig um einn sentimetra og setti í leiðinni mótsmet og bætti eigin HSK-met í þremur flokkum stúlkna; 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára. Hún átti svo góðar tilraunir við 1,81 m sem hefði verið bæting á Íslandsmetinu í hennar flokki um einn sentimetra. 

Benjamín Guðnason varð Íslandsmeistari í sleggjukasti 16-17 ára og bætti um leið HSK-metið í aldursflokknum þegar hann kastaði 40,38 m. Gamla metið var 38,28 m í eigu Sigþórs Helgasonar og var orðið sjö ára gamalt.

Sindri Freyr Seim Sigurðsson úr Heklu bætti sitt eigið HSK met í 200 m hlaupi í flokki 16-17 ára og 18-19 ára um 5 brot úr sekúndu, hljóp á 22,92 sek. Sindri Freyr varð tvöfaldur Íslandsmeistari en hann sigraði bæði í 100 m og 200 m hlaupi í flokki 16-17 ára.

Þá setti Dagur Fannar Einarsson úr Selfoss HSK met í 400 m grindahlaupi 18-19 ára á 56,58 sek en gamla metið átti hann sjálfur frá því í fyrra. Hann bætti einnig héraðsmetið í 110 m grindahlaupi í sama aldursflokki, hljóp á 15,88 sek en þar bætti hann 26 ára gamalt met Selfyssingsins Magnúsar Arons Hallgrímssonar sem var 16,2 sekúndur.

Dagur Fannar var einnig í sveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×100 m hlaupi 20-22 ára á tímanum 45,95 sek. Með Degi í sveitinni voru þeir Haukur Arnarsson, Jónas Grétarsson og Sindri Freyr Seim Sigurðsson. Allir þessir piltar voru að keppa upp fyrir sig í aldursflokki og tíminn er héraðsmet í flokkum 18-19 ára og 20-22 ára. Metið í 18-19 ára flokknum var komið talsvert til ára sinna, sett árið 1964 og því 56 ára gamalt.

Dagur Fannar fjórfaldur meistari
Dagur Fannar uppskar ríkulega á mótinu og varð fjórfaldur Íslandsmeistari í flokki 18-19 ára. Auk þess að sigra í fyrrnefndum greinum þá sigraði hann einnig í 400 m hlaupi.

Aðrir Íslandsmeistarar en þeir sem hér hafa verið upp taldir eru Goði Gnýr Guðjónsson og Sebastian Þór Bjarnason, með tvo titla hvor, Einar Árni Ólafsson, Hjalti Snær Helgason, Hreimur Karlsson, Elín Karlsdóttir, Auður Helga Halldórsdóttir, Bríet Anna Heiðarsdóttir, Róbert Khorchai Angeluson, Viktor Karl Halldórsson, Martin Patryk Srichakham og Árbjörg Sunna Markúsdóttir, sem öll unnu einn titil hver.

Eva María Baldursdóttir bætti sig og sigraði í hástökki 16-17 ára stúlkna á nýju móts- og héraðsmeti. Ljósmynd/FRÍ
Dagur Fannar Einarsson varð fjórfaldur Íslandsmeistair. Ljósmynd/Marta María Bozovic
Fyrri greinÁrborg semur við Íslenska gámafélagið
Næsta greinÁ þriðja hundrað manns gengu yfir Fimmvörðuháls á sunnudag