Níu Árborgarar sóttu stig

Árborg og Reynir Sandgerði gerðu 2-2 jafntefli í 2. deild karla á Selfossvelli í kvöld.

Árborgarar voru mun sterkari í fyrri hálfleik og þeir uppskáru mark á 31. mínútu þegar Almir Cosic kom boltanum í markið en sjálfsmarkskeimur var af markinu.

Staðan var 1-0 í hálfleik en síðari hálfleikur var fjörugur. Liðin skiptust á að sækja en á 70. mínútu dró til tíðinda þegar varnarmaður Árborgar, Gunnar Hauksson, varði skot Reynismanna með hendi á marklínu. Dómarinn vísaði Gunnari af velli og Reynismenn fengu vítaspyrnu sem þeir skoruðu úr.

Manni færri lögðu Árborgarar ekki árar í bát og Alfie Kamara kom þeim yfir á 82. mínútu með glæsilegu vinstrifótarskoti. Árborg lagði allt í sölurnar til að verja stigin þrjú en allt kom fyrir ekki og á 89. mínútu jöfnuðu Reynismenn. Árborgarar luku leiknum tveimur mönnum færri því á lokamínútunum fékk Almir Cosic rauða spjaldið fyrir brot.

Þegar fjórar umferðir eru eftir eru Árborgarar í ellefta sæti með ellefu stig, ellefu stigum frá öruggu sæti. Þeir þurfa því að vinna síðustu fjóra leikina og treysta á að Völsungur vinni ekki sigur, ætli þeir að halda sæti sínu í deildinni.

Fyrri greinKFR í úrslitakeppnina
Næsta greinAuðvelt hjá Ægi