Nenad Zivanovic þjálfar Ægi

Nenad Zivanovic, þjálfari Ægis. Ljósmynd: fotbolti.net - Eyjólfur Garðarsson

Nenad Zivanovic hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla hjá Ægi í Þorlákshöfn. Ægir féll úr 3. deildinni í sumar og mun leika í 4. deild að ári.

Zivanovic skrifaði undir tveggja ára samning við Ægi síðastliðinn laugardag.

Zivanovic spilaði með Breiðabliki í efstu deild 2006-2008 áður en hann lék með Þór og KF til ársins 2013.

Hann var spilandi aðstoðarþjálfari hjá KF árið 2013 en hann hefur einnig sinnt yngri flokka þjálfun á Íslandi. Zivanovic fór aftur til heimalandsins, Serbíu, og gerðist aðalþjálfari liða í 2. deildinni þar á árunum 2014 til 2016. Í fyrra tók hann svo við þjálfarastarfinu hjá Hetti á Egilsstöðum í 2. deildinni og lauk þar störfum í haust.

„Nenad hefur UEFA-A þjálfaragráðu og býr að góðri reynslu sem leikmaður og þjálfari sem ætti að nýtast okkar liði vel í verkefnunum framundan. Markmiðið er að búa til öflugt lið og snúa okkar gengi til betri vegar á næstu tímabilum. Félagið býður Nenad hjartanlega velkomin til starfa sem þjálfara meistaraflokks karla og hlakkar til að starfa með honum við að efla meistaraflokk Ægis á næstu árum,“ segir í tilkynningu á Facebooksíðu Ægis.

Fyrri greinBjörgun bauð lægst í dýpkun Landeyjahafnar
Næsta greinStolinn sendibíll fannst í Reykjavík