Nenad áfram með Ægi – nýr aðstoðarþjálfari

Arnar og Nenad við undirritun nýju samninganna. Ljósmynd/Ægir

Í vikunni skrifuðu Nenad Zivanovic og Arnar Logi Sveinsson undir tveggja ára samning um að þjálfa karlalið Ægis í knattspyrnu.

Nenad mun sem fyrr vera aðalþjálfari en Arnar Logi verður spilandi aðstoðarþjálfari og tekur þar með við starfi Baldvins Borgarssonar, sem tekur að sér ný verkefni fyrir félagið.

Undir stjórn Nenads hafa Ægismenn náð mögnuðum árangri undanfarin ár en liðið spilaði í 4. deildinni árið 2019, þegar Nenad tók við og fór upp um þrjár deildir á síðustu árum. Ægir spilaði í 1. deildinni síðastliðið sumar en féll aftur niður í 2. deildina.

„Markmiðið er að halda áfram á þeirri vegferð sem liðið hefur verið á síðan 2019 og nýta þá reynslu sem hefur áunnist og stefna óhikað aftur upp,“ segir í tilkynningu frá Ægismönnum.

Fyrri greinÞorkell Ingi ráðinn markmannsþjálfari
Næsta greinTomasz framlengir hjá Árborg