Nelson og Pryor með sýningarleik

Hamar sigraði FSu í kvöld í enn einum baráttuleiknum um Suðurland í 1. deild karla í körfubolta. Liðin mættust í Iðu í toppslag en sunnlensku liðin eru í 2. og 3. sæti deildarinnar. Lokatölur urðu 79-98.

Hamarsmenn voru skrefinu á undan framan af jöfnum 1. leikhluta en Collin Pryor skoraði síðustu körfu FSu í leikhlutanum og kom þeim yfir, 23-22. Julian Nelson byrjaði vel í leiknum fyrir Hamar og skoraði 14 stig í 1. leikhluta en Pryor skoraði 11 stig hinu megin.

Hvergerðingar létu sverfa til stáls undir lok fyrri hálfleiks og breyttu stöðunni á skömmum tíma úr 36-36 í 40-47 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Hamarsliðið mætti vel stemmt til síðari hálfleiks og tíu stig frá Nelson í röð skiluðu þeim 42-59 forystu þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar af 3. leikhluta. Þá kviknaði aftur ljós í herbúðum FSu en þeim gekk þrátt fyrir það ekki vel að vinna niður forskot Hamars.

Hamar hafði nokkuð góð tök á leiknum það sem eftir lifði leiks og héldu Selfyssingunum í góðri fjarlægð. Munurinn varð minnstur níu stig í upphafi 4. leikhluta, 65-74, en þá tóku Hvergerðingar aftur við sér og svöruðu með 4-16 áhlaupi.

Þrátt fyrir að hafa undirtökin á lokakaflanum var Hallgrímur Brynjólfsson, Hamarsþjálfari, ekki í rónni fyrr en tæpar þrjár mínútur voru eftir af leiknum. „FSu er lið sem getur snögghitnað fyrir utan þriggja stiga línuna en við vorum búnir að fara vel yfir það hvernig við vildum verjast þeim. Siggi Haff átti stórleik í vörninni sinni á Ara [Gylfason] og var hálfgerður yfirfrakki á honum,“ sagði Hallgrímur í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Hallgrímur hrósaði líka framlagi erlendu leikmannanna en Julian Nelson og Collin Pryor voru í sérflokki á vellinum í kvöld og skiptust á skotum eins og kúrekar í villta vestrinu á tímabili. Pryor skoraði 43 stig fyrir FSu og tók 11 fráköst og Nelson skoraði 41 stig og tók sömuleiðis 11 fráköst.

Þorsteinn Gunnlaugsson og Bjarni Rúnar Lárusson skoruðu báðir 16 stig og tóku 8 fráköst fyrir Hamar, Sigurður Orri Hafþórsson skoraði 15, Örn Sigurðarson 5, Mikael Rúnar Kristjánsson 3 og Snorri Þorvaldsson 2.

Hjá FSu var Hlynur Hreinsson með 8 stig, Erlendur Stefánsson 7, Þórarinn Friðriksson 6, Ari Gylfason 5, Maciej Klimaszewski 4, Svavar Stefánsson 3, Haukur Hreinsson 2 og Fraser Malcom 1.

Með sigrinum fór Hamar uppfyrir FSu en bæði lið hafa 22 stig í 2.-3. sæti deildarinnar, þegar 17 leikjum er lokið. Höttur er í toppsætinu með 30 stig og hefur leikið 18 leiki.

Fyrri greinFundu týndan göngumann heilan á húfi
Næsta greinBúið að opna Hellisheiði og Þrengsli