Neitaði hraðakstri í þjóðgarðinum

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan á Suðurlandi kærði 34 ökumenn fyrir að aka of hratt í umdæminu í liðinni viku.

Einn þeirra var mældur á 93 km/klst hraða á Hafnarbraut við tjaldsvæðið á Höfn en þar er hámarkshraði 50 km/klst. Sektin við slíku broti er 70.000 krónur.

Annar ökumaður var kærður fyrir að aka of hratt í gegn um þjóðgarðinn á Þingvöllum þar sem hámarkshraðinn er einnig 50 km/klst og fékk hann 40 þúsund króna sekt. Annar ökumaður þar mældist á 91 km/klst hraða. Hann neitaði sök og er málið á leið til ákærusviðs til meðferðar.

Einn ökumaður var kærður fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiðar sinnar á Austurvegi á Selfossi og var hann sektaður um 40 þúsund krónur.

Þá fjarlægði lögreglan skráningarmerki af þremur ótryggðum bílum og fjórir ökumenn voru stöðvaðir, grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

Fyrri greinTvö hestaslys í vikunni
Næsta greinÞór fékk ÍR í bikarnum