Ndiaye lánaður til Hamars

Selfyssingar hafa lánað Senegalann Abdoulaye Ndiaye til 2. deildarliðs Hamars í Hveragerði.

Framherjinn hefur komið við sögu í sjö af tólf leikjum Selfoss í Pepsi-deildinni án þess að hafa skorað mark. Hann skoraði þó eitt marka Selfoss í 4-0 sigri á 3. deildarliði KB í Borgunarbikarnum.

Í Hamri hittir Ndiaye fyrir landa sinn, Sene Abdahla, sem einnig er á láni frá Selfossi. Sene hefur skorað fimm mörk fyrir Hamar í sumar og er markahæstur Hvergerðinga.

Þá hafa Hamarsmenn einnig fengið hinn unga og bráðefnilega Ingva Rafn Óskarsson að láni frá Selfossi. Ingvi, sem er 19 ára gamall, hefur ekki fengið tækifæri með meistaraflokki Selfoss í sumar. Hann var lánaður til Árborgar á sama tíma í fyrra og lék þá sjö leiki í 2. deildinni.