Naumur sigur í KR-heimilinu

Hamarskonur komust í hann krappann þegar þær sigruðu KR með tveggja stiga mun í Iceland Express-deild kvenna í kvöld, 55-57.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann og varnarleikurinn í hávegum hafður. Hamar leiddi að loknum 1. leikhluta, 9-12, en staðan í hálfleik var 25-31.

Hamar hafði forystuna mest allan síðari hálfleik og þegar þrjár og hálf mínúta var eftir af leiknum var staðan 49-54. KR skoraði þá sex stig í röð og komst yfir, 55-54.

Guðbjörg Sverrisdóttir kom Hamri í 55-56 þegar 38 sekúndur voru eftir og í næstu sókn KR varði Jaleesa Butler skot Hildar Sigurðardóttur.

Fanney Guðmundsdóttir fór því næst á vítalínuna fyrir Hamar en brenndi af báðum skotum sínum. Aftur fór KR í sókn með 9 sekúndur á klukkunni en Butler stal boltanum og aftur brutu KR-ingar á Fanney. Hún setti niður seinna skotið á síðustu sekúndu leiksins og tryggði sigur Hamars.

Besti leikmaður Iceland Express-deildarinnar, Jaleesa Butler, var stigahæst hjá Hamri með 20 stig og 9 fráköst. Slavica Dimovska skoraði 14 stig og Kristrún Sigurjónsdóttir 9.

Fyrri greinBrennslan á Klaustri á undanþágu
Næsta greinNítján þúsund hafa mótmælt