Naumur sigur á botnliðinu

FSu vann nauman sigur á botnliði Ármanns í 1. deild karla í körfubolta í kvöld, 81-84.

Leikurinn var jafn allan tímann en Ármenningar leiddu að loknum 1. leikhluta, 22-18. FSu svaraði fyrir sig í 2. leikhluta og hafði forystuna í hálfleik, 40-41.

Síðari hálfleikur var spennandi en Ármenningar náðu mest 10 stiga forskoti, 76-66, þegar tæpar sjö mínútur voru eftir af leiknum. Skólapiltarnir frá Selfossi brettu þá upp ermar og náðu að minnka muninn í tvö stig, 81-79, þegar rúmar tvær mínútur voru eftir.

Þá var blaðran sprungin hjá Ármenningum sem skoruðu ekki meira en Valur Valsson og Guðmundur Gunnarsson kláruðu leikinn fyrir FSu á vítalínunni á lokamínútunni.

Guðmundur skoraði 18 stig í leiknum, Valur Orri 17, Arnþór Tryggvason 15, Orri Jónsson 12 og Björn Kristjánsson 11.

FSu er með 18 stig í 6. sæti deildarinnar og ljóst er að liðið kemst ekki í úrslitakeppni deildarinnar. Blikar hafa 20 stig en geta ekki endað neðar en FSu þar sem Kópavogsliðið hefur betur í innbyrðis leikjum.

Fyrri greinGreiðslustöðvun Ræktó lokið og nauðasamningar í gang
Næsta grein222 stig á Laugarvatni