Naumt tap í spennuleik

Gunnar Kári Bragason skorar annað af tveimur mörkum sínum í kvöld. sunnlenska.is/Benedikt Hrafn Guðmundsson

Selfoss mætti HK í annarri umferð Ragnarsmótsins í handbolta í kvöld. Eftir jafnan og spennandi leik höfðu HK-ingar betur, 33-34.

Fyrri hálfleikur var hraður og skemmtilegur og lítið sem skildi á milli. Staðan var 16-17 í hálfleik og jafnræðið hélt áfram í seinni hálfleiknum. Undir lok leiks náði HK þriggja marka forystu en Selfoss svaraði fyrir sig á lokamínútunum, en tókst ekki að jafna.

Haukur Páll Hallgrímsson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk, Hannes Höskuldsson skoraði 5, Hákon Garri Gestsson 4, Aron Leo Guðmundsson, Sölvi Svavarsson og Valdimar Örn Ingvarsson 3, Álvaro Mallols, Gunnar Kári Bragason, Jason Dagur Þórisson og Jónas Karl Gunnlaugsson skoruðu allir 2 mörk og Dagur Rafn Gíslason 1. Ísak Kristinn Jónsson og
Egill Eyvindur Þorsteinsson voru báðir með 3 varin skot.

Hjá HK var Sigurður Jefferson Guarino markahæstur með 8 mörk og Rökkvi Pacheco Steinunnarson varði 4 skot.

Í hinum leik kvöldsins sigraði ÍBV Víkinga 26-23. Staðan var 15-10 í hálfleik. Dagur Arnarsson skoraði 5 mörk fyrir ÍBV og Petar Jokanovic varði 5 skot. Hjá Víkingum skoraði Kristján Helgi Tómasson 5 mörk og Daði Bergmann Gunnarsson varði 7 skot.

Staðan hjá körlunum fyrir lokaumferðina er þannig að ÍBV og HK eru með þrjú stig, Víkingar tvö og Selfoss án stiga. Lokaumferðin hjá körlunum verður leikin á föstudag og laugardag. Á morgun, fimmtudag, eiga konurnar leik; Klukkan 18 mætast ÍBV og Afturelding og klukkan 20:15 leikur Selfoss gegn Víkingi.

Fyrri greinLánleysi Stokkseyringa heldur áfram
Næsta greinHellisheiði lokuð vegna malbikunar