Naumt tap í hörkurimmu á Hvammstanga

Atli Rafn Guðbjartsson skoraði fyrir Ægi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægismenn heimsóttu Kormák/Hvöt á Hvammstanga í dag í 2. deild karla í knattspyrnu. Eftir hörkuleik höfðu heimamenn betur en sigurmarkið kom á lokamínútunum.

Bæði lið gerðu sig líkleg á upphafsmínútunum en heimamenn voru á undan að skora. Þeir komust yfir á 18. mínútu og fengu svo vítaspyrnu tíu mínútum síðar. Andri Þór Grétarsson varði spyrnuna en dómarinn lét endurtaka hana og Kormákur/Hvöt kominn í 2-0. Atli Rafn Guðbjartsson minnkaði muninn fyrir Ægi eftir skot af löngu færi á lokamínútu fyrri hálfleiks og staðan var 2-1 í leikhléi.

Ægismenn voru sterkari aðilinn í seinni hálfleiknum og eftir rúmt korter fengu þeir vítaspyrnu. Bjarki Rúnar Jónínuson fór á punktinn og skoraði af öryggi. Ægir reyndi allt hvað af tók að finna sigurmarkið en fengu mark í andlitið eftir hornspyrnu tveimur mínútum fyrir leikslok. Strax í næstu sókn átti Jordan Adeyemo stangarskot en inn vildi boltinn ekki og Kormákur/Hvöt sigraði 3-2.

Þrátt fyrir tapið eru Ægismenn enn í toppsæti deildarinnar með 29 stig og þriggja stiga forskot á Dalvík/Reyni og Þrótt V.

Fyrri greinÞyrlan í sjúkraflug að Fjallabaki
Næsta greinTöfrandi stemning í Kerlingarfjöll ULTRA