Naumt tap í Grafarvogi

FSu sótti Fjölni heim í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Úr varð hörkuleikur en FSu gaf eftir í síðari hálfleik og Fjölnir hafði sigur, 88-84.

Fyrsti leikhluti var jafn en FSu var skrefinu á undan og komst í 17-24 eftir 2-9 áhlaup undir lok leikhlutans. Baráttan hélt áfram í 2. leikhluta, Fjölnir komst yfir, 29-28 en FSu svaraði með 2-11 kafla og Selfyssingarnir höfðu yfir í hálfleik, 38-43.

Fjölnismenn voru sterkari í upphafi síðari hálfleiks og leiddu þeir 67-59 að þriðja leikhluta loknum. Í síðasta fjórðungnum leiddi Fjölnir allan tímann en FSu náði að minnka muninn í eitt stig, 80-79, þegar tvær mínútur voru eftir. Nær komst FSu liðið ekki og Fjölnismenn unnu að lokum, 88-84.

Collin Pryor skoraði 46 stig fyrir FSu, Ari Gylfason 17, Svavar Ingi Stefánsson 7, Erlendur Ágúst Stefánsson 5, Arnþór Tryggvason 4, Geir Elías Úlfur Helgason 3 og Hlynur Hreinsson 2.

FSu er í harðri baráttu við Hamar og Breiðablik um síðasta sætið í úrslitakeppninni en liðin hafa öll 14 stig þegar þrjár umferðir eru eftir. Næsti leikur gæti ráðið miklu en þar mætast FSu og Hamar í Iðu, næstkomandi fimmtudagskvöld.

Fyrri greinEldur í bíl í Þrengslunum
Næsta greinAnna í Stóru-Borg á fjalirnar í fyrsta sinn