Naumt tap í fyrsta leik

Leikmannahópur Hamars/Þórs. Ljósmynd/Hamar-Þór Körfubolti

Lið Hamars/Þórs lék sinn fyrsta keppnisleik í 1. deild kvenna í körfubolta í kvöld en liðið mætti Ármanni í Laugardalshöllinni.

Ármenningar byrjuðu leikinn betur og leiddu 17-8 eftir fyrsta leikhluta en Hamar/Þór fór á kostum í 2. leikhluta og náðu að snúa leiknum sér í vil, 30-34 í leikhléi.

Seinni hálfleikurinn var í járnum framan af en Ármann skoraði 11 fyrstu stigin í 4. leikhluta, komst í 52-42, og lagði þar grunninn að sigrinum. Hamar/Þór klóraði í bakkann í lokin en lokatölur urðu 57-51.

Spáin fyrir 1. deild kvenna í körfubolta var birt í dag. Forsvarsmenn liðanna í deildinni spá því að Hamar/Þór veðri í 5. sæti en fjölmiðlamenn spá liðinu 6. sæti. Spámennirnir eru sammála um að Njarðvík og Grindavík verði í toppbaráttunni ásamt ÍR.

Tölfræði Hamars/Þórs: Hrafnhildur Magnúsdóttir 11/4 fráköst, Þórunn Bjarnadóttir 10/14 fráköst, Rannveig Reynisdóttir 10/5 fráköst, Helga María Janusdóttir 9/9 fráköst, Ingibjörg Bára Pálsdóttir 6, Gígja Marín Þorsteinsdóttir 3, Elektra Mjöll Kubrzeniecka 2, Ása Lind Wolfram 4 fráköst.

Fyrri greinAnna Björk í frönsku deildina
Næsta greinFrábærir í fjórtán mínútur