Naumt tap gegn toppliðinu

Halldór Garðar Hermannsson var stigahæstur Þórsara með 17 stig. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Þór Þorlákshöfn tapaði naumlega gegn toppliði Tindastóls á útivelli í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld, 72-67.
Tindastóll leiddi með fimm stigum eftir 1. leikhluta en Þór náði að jafna og staðan var 39-39 í leikhléi. Þórsarar voru sterkari í 3. leikhluta en í þeim fjórða fór allt á versta veg.
Þegar átta mínútur voru til leiksloka gerði Tindastóll 16-1 áhlaup og breytti stöðunni úr 54-58 í 70-59, með tvær og hálfa mínútu eftir á klukkunni. Þórsarar náðu að klóra ágætlega í bakkann á lokamínútunum en vantaði herslumuninn.
Vincent Bailey var öflugur hjá Þór með 11 stig og 11 fráköst en Halldór Hermannsson var stigahæstur með 17 stig. Jaka Brodnik reyndist sínum gömlu félögum erfiður en hann skoraði 24 stig fyrir Tindastól.
Stólarnir sitja í toppsæti deildarinnar með 14 stig en Þór er í 8. sæti með 8 stig.
Tölfræði Þórs: Halldór Garðar Hermannsson 17/5 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 13, Marko Bakovic 12/6 fráköst, Vincent Terrence Bailey 11/11 fráköst, Dino Butorac 9/6 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 3, Emil Karel Einarsson 2/6 fráköst.
Fyrri greinAllar upplýsingar um færð og veður á einu korti
Næsta greinGott viðbragð varðskipsmanna – Drógu bát til hafnar