Naumt tap gegn meisturunum

Tinna Sigurrós Traustadóttir skoraði fjögur mörk í leiknum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Botnlið Selfoss tapaði naumlega fyrir Íslandsmeisturum Fram þegar liðin mættust í Safamýrinni í Reykjavík í Olísdeild kvenna í kvöld, 25-24.

Leikurinn var hnífjafn í fyrri hálfleik og nánast jafnt á öllum tölum upp í 12-12 en þannig stóðu leikar í leikhléi.

Selfoss skoraði þrjú fyrstu mörkin í seinni hálfleik og komst í 12-15 en Framkonur jöfnuðu 18-18 þegar þrettán mínútur voru liðnar af seinni hálfleik.  Selfoss náði aftur tveggja marka forskoti í kjölfarið en Framarar létu ekki segjast og jöfnuðu 22-22 þegar rúmar tíu mínútur voru eftir.

Lokakaflinn var skrautlegur en liðunum gekk illa að skora síðustu tíu mínúturnar. Fram komst tveimur mörkum yfir en Selfoss jafnaði 24-24 þegar 14 sekúndur voru eftir. Fram tók þá leikhlé og teiknaði upp lokasóknina. Það skilaði árangri því Framkonur skoruðu sigurmarkið þegar tvær sekúndur voru eftir af leiknum.

Kristrún markahæst
Kristrún Steinþórsdóttir var markahæst Selfyssinga með 5 mörk, Tinna Sigurrós Traustadóttir og Perla Ruth Albertsdóttir skoruðu báðar 4, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir 4/2, Ída Bjarklind Magnúsdóttir 3, Sarah Sörensen 2 og Hulda Dís Þrastardóttir 2/1.

Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 14 skot í marki Selfoss og var með 36% markvörslu.

Úrvalsdeildarsætið hangir á bláþræði
Þegar þrjár umferðir eru eftir af deildinni er Selfoss enn í botnsætinu með 4 stig. Til þess að komast í umspil um áframhaldandi sæti í deildinni þarf Selfoss að minnsta kosti fimm stig úr síðustu þremur leikjunum, gegn ÍBV, Stjörnunni og HK og um leið þurfa Selfyssingar að treysta á að HK vinni ekki neinn af síðustu þremur leikjum sínum.

Fyrri greinFjóla að komast í fyrra form
Næsta grein„Milda hjartað“ plötuumslag ársins