Naumt tap á útivelli

Hamar tapaði naumlega þegar liðið heimsótti Val í Domino’s-deild kvenna í körfubolta í kvöld, 65-61.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og lítið skorað, en staðan í leikhléi var 26-29, Hamri í vil.

Valskonur mættu hins vegar grimmar inn í seinni hálfleikinn og luku 3. leikhluta á 12-1 áhlaupi. Þar með var Valsliðið komið með forystuna, 42-37.

Síðasti fjórðungurinn var spennandi en liðin skiptust á um að hafa forystuna. Þegar þrjár og hálf mínúta voru eftir af leiknum leiddi Hamar, 53-54, en þá kom 9-2 rispa hjá Val sem lagði grunninn að sigri þeirra. Hamar klóraði í bakkann með þriggja stiga körfu þegar hálf mínúta var eftir, 64-61, en nær komust Hvergerðingar ekki.

Sydnei Moss var besti maður vallarins, skoraði 27 stig fyrir Hamar og tók 9 fráköst. Heiða Valdimarsdóttir skoraði 10 stig, Þórunn Bjarnadóttir 9, Salbjörg Sævarsdóttir 7, auk þess sem hún tók 15 fráköst og varði 5 skot. Sóley Guðgeirsdóttir skoraði 5 stig og Hafdís Ellertsdóttir 3.

Fyrri greinFlytja ekki lifandi kamínur
Næsta greinBjörg og Snæbjörn fengu landbúnaðarverðlaunin