Naumt tap á útivelli

Lið Hamars/Þórs. Ljósmynd/Hamar-Þór Körfubolti

Hamar-Þór tapaði naumlega fyrir Vestra í 1. deild kvenna í körfubolta í dag, þegar liðin mættust á Ísafirði.

Hamar-Þór byrjaði leikinn illa og Vestri leiddi 18-9 eftir 1. leikhluta. Hamar lagaði stöðuna lítillega í 2. leikhluta en staðan var 25-19 í hálfleik. Það var mun meira skorað í seinni hálfleiknum en Hamar-Þór gekk illa að brúa bilið í 3. leikhluta. 

Fjórði leikhluti var hins vegar æsispennandi og þegar rúmar tvær mínútur voru eftir jafnaði Hamar-Þór 56-56. Vestrakonur reyndust hins vegar sterkari á lokasprettinum en þær skoruðu síðustu fjögur stig leiksins og tryggðu sér 64-60 sigur.

Fallyn Stevens var öflug hjá Hamri-Þór, skoraði 23 stig og tók 11 fráköst og Hrafnhildur Magnúsdóttir skoraði 20 stig og tók 13 fráköst.

Hamar-Þór er í 7. sæti 1. deildarinnar með 4 stig en Vestri er í botnsætinu með 2 stig, en þetta var fyrsti sigur liðsins í vetur.

Tölfræði Hamars-Þórs: Fallyn Stephens 24/11 fráköst, Hrafnhildur Magnúsdóttir 20/13 fráköst, Gígja Marín Þorsteinsdóttir 7/9 fráköst, Dagrún Inga Jónsdóttir 7/4 fráköst, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 2/4 fráköst.