Naumt tap á Nesinu

Kvennalið Selfoss tapaði naumlega þegar liðið heimsótti Gróttu á Seltjarnarnesið í N1-deildinni í handbolta í kvöld. Grótta sigraði 17-16.

Heimaliðið var sterkara í fyrri hálfleik og staðan var 11-7 í leikhléi. Selfyssingar réttu sinn hlut í síðari hálfleik en tókst ekki að krækja í stig og Grótta sigraði með eins marks mun.

Fyrir leikinn munaði einu stigi á liðunum á stigatöflunni en með sigrinum fór Grótta í 7 stig í 7. sæti en Selfoss hefur 4 stig í 9. sæti.

Carmen Palamariu var markahæst Selfyssinga með fimm mörk, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Kristrún Steinþórsdóttir skoruðu báðar þrjú mörk, Hildur Öder Einarsdóttir og Tinna Soffía Traustadóttir tvö og Dagný Hróbjartsdóttir eitt.