Naumt tap á heimavelli

Jada Guinn var öflug hjá Hamri/Þór með 37 stig og 13 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór tók á móti Val í hörkuleik í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í Hveragerði í kvöld. Valur vann nauman sigur, 83-88.

Leikurinn var jafn á upphafsmínútunum en síðan tóku Valskonur völdin og þær leiddu 15-21 að loknum 1. leikhluta. Gestirnir hófu 2. leikhlutann á 10-2 áhlaupi og staðan skyndilega orðin 17-31 en þær sunnlensku tóku sig saman í andlitinu eftir það og minnkuðu muninn í tíu stig, 37-47 í hálfleik.

Hamar/Þór byrjaði seinni hálfleikinn mjög vel og minnkuðu muninn í fjögur stig, 49-53. Eftir það var leikurinn í járnum en Valur skrefinu á undan allt til leiksloka.

Jada Guinn var öflug hjá Hamri/Þór með 37 stig og 13 fráköst og Jovana Markovic skoraði 14 stig.

Hamar/Þór er enn án stiga eftir þrjár umferðir og situr í 8. sæti deildarinnar en Valur er í 4. sætinu með 4 stig.

Hamar/Þór-Valur 83-88 (15-21, 22-26, 21-16, 25-25)
Tölfræði Hamars/Þórs: Jadakiss Guinn 37/13 fráköst, Jovana Markovic 14/9 fráköst, Ellen Iversen 11/7 fráköst/5 stoðsendingar, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 8, Mariana Duran 6, Dagrún Inga Jónsdóttir 5, Matilda Sóldís Svan Hjördísardóttir 2.

Fyrri greinIngólfsfjall skelfur við Tannastaði
Næsta greinLaugarás Lagoon opnar í dag