Naumt tap á heimavelli

Nenad Zivanovic, þjálfari Ægis, sýnir gamalkunn tilþrif á hliðarlínunni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stigasöfnun Ægis í Lengjudeild karla í knattspyrnu gengur erfiðlega en í kvöld tapaði Ægir naumlega gegn ÍA á Þorlákshafnarvelli.

Fyrri hálfleikur var jafn, Skagamenn voru meira með boltann en bæði lið fengu fín færi á því að komast yfir.

Staðan var 0-0 í hálfleik en í upphafi seinni hálfleiks hertu Skagamenn tökin og áttu nokkrar þungar atlögur að marki Ægis en vörn þeirra gulu var góð. Eitthvað varð þó undan að láta og á 63. mínútu skoraði Daniel Ingi Jóhannesson eina mark leiksins og tryggði ÍA 0-1 sigur.

Leikurinn var þó langt frá því að vera búinn og Ægismenn náðu nokkrum sinnum að opna vörn ÍA og skapa dauðafæri en boltinn vildi alls ekki í netið.

Með sigrinum lyfti ÍA sér upp í 6. sæti deildarinnar með 8 stig en Ægir er áfram í botnsætinu með 1 stig.

Fyrri greinLagið sem gafst ekki upp
Næsta greinKjarasamningur undirritaður og verkfalli aflýst