Naumt tap Þórs í Vesturbænum

Nýliðar Þórs velgdu Íslandsmeisturum KR verulega undir uggum í 1. umferð Iceland Express-deildar karla í körfubolta í kvöld. KR sigraði 90-84.

Liðin byrjuðu leikinn af krafti, pressuðu og skutu grimmt en KR náði fljótlega undirtökunum og komst í 20-12. Þór svaraði með þrettán stigum í röð og komust yfir en staðan var 24-25 að loknum fyrsta leikhluta.

Þórsarar juku forskotið í 26-30 í upphafi 2. leikhluta en KR kom til baka með tveimur þriggja stig körfum og breyttu stöðunni í 34-32. Þórsarar sigu svo framúr og leiddu 48-42 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var spennandi en Þórsarar voru fljótlega komnir í villuvandræði og þegar leið á leikinn misstu dómararnir tökin á honum svo hallaði nokkuð á Þór. Þeir grænu hefðu þó getað gert betur og misnotuðu m.a. átta vítaskot í leiknum.

Að loknum þriðja leikhluta leiddi KR 68-60 en Þórsarar komust enn á ný inn í leikinn og minnkuðu muninn í 69-67. Baráttan var gríðarleg á lokakaflanum en KR var alltaf skrefi á undan og hleyptu Þórsurum ekki nær en 77-75 þegar þrjár mínútur voru eftir. KR jók forskotið í sex stig á síðustu einu og hálfu mínútunni og lokatölur voru 90-84.

Darrin Govens skoraði 28 stig fyrir Þór og tók 10 fráköst. Michael Ringgold skoraði 22 stig og tók 15 fráköst, Guðmundur Jónsson skoraði 13 stig og Darri Hilmarsson 12.