„Náum ekki að skapa nægilega góð færi“

Selfoss varð af dýrmætum stigum í 1. deild kvenna í knattspyrnu í dag þegar liðið gerði 0-0 jafntefli við Hamrana á heimavelli.

„Við vorum ekki nógu góðar í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik spýttum við í lófana og vorum mun betri og boltinn var á sóknarhelming okkar en við náum ekki að skapa okkur nægilega góð færi,” sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik.

Selfyssingar voru sterkari í fyrri hálfleik og þó að uppspil liðsins gengi illa á köflum átti liðið nokkrar ágætar sóknir og þrjú eða fjögur mjög góð færi. Inn vildi boltinn hins vegar ekki.

Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik en sóknarþungi Selfoss jókst ef eitthvað var. Á 78. mínútu átti Anna María Friðgeirsdóttir sláarskot og í uppbótartímanum setti Alex Alugas boltann í þverslána með skoti utan af velli. Unnur Dóra Bergsdóttir hirti upp frákastið og skoraði en aðstoðardómari dæmdi markið af og sagði markvörð gestanna hafa haft boltann í höndunum. Líklega sáu allir vallargestir að um rangan dóm var að ræða.

Þrátt fyrir jafnteflið er Selfoss í efsta sæti deildarinnar með 36 stig, en þar fyrir neðan eru HK/Víkingur og Þróttur með 33 stig og bæði lið eiga leik til góða. Selfoss mætir HK/Víkingi á útivelli í lokaumferðinni.

Markið sem dæmt var af Selfyssingum má sjá hér að neðan.

Fyrri greinKomufjöldi á bráðamóttöku hefur aukist um 34%
Næsta greinÞolmörkum hefur þegar verið náð