Nat-vélin með 25 fráköst

Þór Þorlákshöfn gerði góða ferð vestur Suðurstrandarveg í kvöld þegar þeir lögðu nágranna sína í Grindavík 78-88 í Domino's-deild karla í körfubolta.

Þórsarar tóku leikinn strax föstum tökum, komust í 4-11 í upphafi leiks og leiddu eftir 1. leikhluta, 17-26. Grindavík hafði hins vegar undirtökin í 2. leikhluta og jafnaði leikinn með síðustu körfu fyrri hálfleiks, 41-41.

Þórsarar höfðu hins vegar betur í síðari hálfleik og juku forskotið jafnt og þétt þó að Grindvíkingar hafi aldrei verið langt undan. Þórsara munaði mikið um framlag Ragnars Nathanaelssonar sem reif niður hvert frákastið af öðru í síðari hálfleik og var meðal annars með sjö sóknarfráköst í 3. leikhluta. Samtals var Ragnar með 25 fráköst.

Mike Cook Jr. var stigahæstur Þórsara með 24 stig en maður leiksins var Ragnar með 19 stig og 25 fráköst. Nemanja Sovic skoraði 18 stig, Baldur Ragnarsson 14, Tómas Tómasson 11 og Þorsteinn Ragnarsson 2.

Þórsarar eru nú í 7. sæti deildarinnar með 10 stig en staðan um miðja deild er mjög jöfn og sex lið í 3.-8. sæti með 12 og 10 stig.

Fyrri greinÚr hámarki í lágmarksútsvar
Næsta greinFSu með öruggan sigur