Naglbítur í Þorlákshöfn

Vincent Shahid var stigahæstur Þórsara. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn vann mikilvægan sigur á Tindastóli í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld, þegar liðin mættust í Þorlákshöfn. Eftir framlengingu hafði Þór 93-90 sigur.

Leikurinn var jafn allan tímann, staðan í hálfleik var 36-31 en Stólarnir komust yfir strax í upphafi seinni hálfleiks. Liðin skiptust á um að hafa forystuna í 4. leikhluta en Stólunum mistókst að tryggja sér sigur í síðustu sókninni og staðan var 83-83 eftir venjulegan leiktíma.

Í framlengingunni höfðu Þórsarar frumkvæðið og Vinnie Shahid lokaði leiknum með einstöku öryggi á vítalínunni. Shahid var stigahæstur hjá Þór í kvöld með 23 stig og 9 stoðsendingar og Styrmir Snær Þrastarson kom næstur honum með 20 stig og 8 fráköst.

Þegar tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni eru Þórsarar í 7. sæti með 18 stig og í harðri keppni um sæti í úrslitakeppninni. Í 8.-9. sæti eru Stjarnan og Breiðablik með 16 stig. Þór og Stjarnan mætast í næstu umferð í Garðabænum.

Þór Þ.-Tindastóll 93-90 (17-17, 19-14, 19-25, 28-27, 10-7)
Tölfræði Þórs: Vincent Shahid 23/4 fráköst/9 stoðsendingar, Styrmir Snær Þrastarson 20/8 fráköst/3 varin skot, Jordan Semple 16/9 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 11/4 fráköst, Tómas Valur Þrastarson 8/4 fráköst, Fotios Lampropoulos 8/7 fráköst/6 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 6, Pablo Hernandez 1/7 fráköst.

Fyrri greinTöpuðu aldrei gleðinni
Næsta greinSelfyssingar skelltu Íslandsmeisturunum