Náðu sér ekki almennilega í gang

Ísak Gústafsson sækir að marki Aftureldingar í kvöld. Sverrir Pálsson og Guðmundur Hólmar Helgason fylgjast með úr stúkunni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar náðu sér ekki almennilega í gang þegar Afturelding kom í heimsókn í Set-höllina á Selfossi í kvöld í Olísdeild karla í handbolta.

Selfyssingar skoruðu þrjú fyrstu mörkin en eftir 11 mínútur jöfnuðu Mosfellingar 6-6. Leikurinn var jafn eftir það en undir lok fyrri hálfleiks kom góður sprettur hjá gestunum sem breyttu stöðunni í 13-17 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Munurinn hélst svipaður í fyrri hluta seinni hálfleiks en smátt og smátt herti Afturelding tökin og náði mest tíu stiga forskoti, 20-30. Selfyssingar klóruðu í bakkann undir lokin en úrslitin voru ráðin, lokatölur 30-37.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 7/2 mörk, Richard Sæþór Sigurðsson skoraði 5 mörk og var með 100% skotnýtingu, eins og Gunnar Bragi Kárason sem skoraði 4 mörk og Atli Ævar Ingólfsson sem skoraði 3 mörk. Ísak Gústafsson skoraði einnig 3 mörk, Hannes Höskuldsson 3/2, Sölvi Svavarsson og Haukur Páll Hallgrímsson 2 og Elvar Elí Hallgrímsson 1.

Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 6 skot í marki Selfoss og var með 21% markvörslu og Vilius Rasimas varði 3 skot og var með 18% markvörslu.

Selfyssingar eru í 7. sæti með 23 stig fyrir lokaumferðina, sem fer fram á annan í páskum. Þar mæta Selfyssingar FH á útivelli en allt útlit er fyrir að þessi lið muni einnig mætast í 8-liða úrslitunum.

Fyrri greinHaukar skrefinu á undan
Næsta greinÁrborg úr leik í bikarnum