Nacho Gil lánaður á Selfoss

Nacho Gil í baráttu við Danijel Majkic í leik Selfoss og Vestra í 1. deildinni 2021. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Spænski miðjumaðurinn Nacho Gil er genginn í raðir Selfoss á lánssamning frá Bestu-deildar liði Vestra á Ísafirði. Hann fær leikheimild þann 17. júlí, þegar félagaskiptaglugginn opnar aftur.

Nacho, sem er fæddur árið 1993, kom fyrst hingað til lands 2018 þegar hann spilaði með Þór á Akureyri í tvö tímabil. Þaðan fór hann til Ísafjarðar og hefur spilað með Vestra allar götur síðan. Það sem af er tímabili hefur hann leikið fimm leiki í Bestu deildinni. Nacho er miðjumaður og getur bæði spilað á miðri miðjunni og djúpur. Hann kom á Selfoss í gær og æfði með liðinu í morgun.

„Ég þekki Bjarna en við unnum saman hjá Vestra fyrir fjórum árum. Bjarni fær það besta út úr þeim leikmönnum sem hann er að vinna með að hverju sinni og það er það sem ég þarf á þessum tímapunkti á mínum ferli,“ segir Nacho eftir að hafa skrifað undir samninginn við Selfoss.

„Ég vonast til þess að hjálpa liðinu að ná markmiðum sínum á tímabilinu. Liðið hefur verið að gera góða hluti í deildinni, með mjög ungt lið og svo eru aðstæðurnar hérna á Selfossi auðvitað frábærar,” sagði Nacho ennfremur.

Fyrri greinÆgismenn dragast aftur úr
Næsta greinOrgelsumar á Eyrarbakka