Myrra varði titilinn

Lið snyrtistofunnar Myrru sigraði annað árið í röð á Guðjónsmótinu sem haldið var í dag.

Knattspyrnudeild Umf. Selfoss heldur Guðjónsmótið sem er firmakeppni í innanhússknattspyrnu og er mótið haldið til minningar um Guðjón Ægi Sigurjónsson. Rúmlega tuttugu lið voru skráð til leiks og eftir æsispennandi og skemmtilega keppni léku Myrra og Rakarastofa Björns og Kjartans til úrslita.

Leikurinn var jafn og spennandi og eftir venjulegan leiktíma var staðan 2-2. Því var gripið til framlengingar og þar skoraði Hjörvar Sigurðsson eina markið fyrir Myrru sem fagnaði vel í leikslok.

Í leik um þriðja sætið sigruðu JP Lögmenn/Árborgir stuðningsmannasveitina Skjálfta.

Sterkt lið Tryggingamiðstöðvarinnar komst ekki í úrslit en fékk verðlaun fyrir bestu búningana og Gunnar Bragi Þorsteinsson, framkvæmdastjóri TRS, var valinn eftirtektarverðasti leikmaðurinn.

Gleðinni lýkur í Hvítahúsinu í kvöld þar sem knattspyrnudeildin blæs til styrktardansleiks með Stuðlabandinu, OFL og DJ Búna.