Mullersæfingar á gönguför

Í kvöld kl. 20:00, stendur Upplit, menningarklasi uppsveita Árnessýslu, fyrir Mullersæfingum á gönguför eftir skógarstígnum ofan við Laugarvatn.

Lagt verður upp frá Bjarnalundi (ofan við Héraðsskólann) og gengið eftir skógarstígnum, þar sem gerðar verða nokkrar laufléttar Mullersæfingar undir leiðsögn Ann-Helen Odberg íþróttafræðings.

Sett hafa verið upp skilti meðfram stígnum með leiðbeiningum um valdar æfingar og fróðleik um æfingakerfið, sem hinn danski I. P. Muller var upphafsmaður að.

Muller var einn af frumkvöðlum þess að stunda líkamsrækt úti í náttúrunni og átti danskt met í fjölmörgum íþróttum eins og hlaupum, kringlu- og sleggjukasti.

Gangan tekur um 45 mínútur og henni lýkur við Tjaldmiðstöðina.