Mótokrossdeildin orðin fyrirmyndardeild

Síðastliðinn laugardag var mótokrossdeild Umf. Selfoss afhentur styrkur að upphæð 500.000 kr. frá Sveitarfélaginu Árborg fyrir að verða orðin fyrirmyndadeild ÍSÍ.

Sem fyrirmyndardeild þarf mótokrossdeildin af standast ákveðnar kröfur sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setur um skipulagningu starfsins, fjárhagsbókhald, forvarnir og fleira.

Það voru Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs og Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri sem afhentu Magnúsi Ragnari Magnússyni, formanni mótokrossdeildarinnar og Kristínu Báru Gunnarsdóttur, formanni Umf. Selfoss styrkinn á milli keppna en þennan dag hélt deildin Íslandsmeistaramót í mótorkrossi á brautinni í Hrísmýri.

Keppnin gekk mjög vel og voru keppendur ánægðir með aðstöðuna en félagar í mótokrossdeildinni hafa unnið fjölmarga tíma í sjálfboðavinnu sl. ár við að laga og bæta brautina.