Motocrosskeppni á Hellu á morgun

Brautin hefur nú hlotið heitið „Nautásbrautin á Hellu“. Ljósmynd/RY

Laugardaginn 8. júní verður fyrsta motocrosskeppni MSÍ sumarið 2024 haldin á nýju mótorkrossbrautinni á Hellu.

Þetta er fyrsta umferð af fimm sem keyrðar eru víðsvegar um landið og keppt er í nokkrum mismunandi flokkum í hverri keppni. Flokkaskipting er allt frá ungum byrjendum yfir í kvennaflokk, unglingaflokk og svo þeir allra vönustu. Eftir sumarið stendur svo einn Íslandsmeistari í hverjum flokki uppi sem sigurvegari.

Aðstandendur mótsins og brautarinnar hvetja fólk til að koma og fylgjast með yfir daginn því þetta er sannkallað fjölskyldusport sem heilu fjölskyldurnar stunda saman. Aldrei að vita nema það geti kveikt áhugann hjá einhverjum að sjá umstangið og skemmtunina sem þessu fylgir.

Herlegheitin hefjast um klukkan 9 í fyrramálið og áætlað er að veita verðlaun um klukkan 17:30.

Akstursíþróttafélagið vill koma því á framfæri að brautin hefur nú hlotið heitið „Nautásbrautin á Hellu“ í höfuðið á fyrirtæki verktaka sem hefur komið að verkefninu og lagt mjög mikið til þess í sjálfboðavinnu.

Fyrri greinPóstboxin orðin 100 hjá Póstinum
Næsta greinTólfþúsundasti íbúinn heimsóttur