Motocrossdeild Selfoss fær aðstöðu í Bolaöldu

Helgi S. Haraldsson, formaður Umf. Selfoss, Fjóla St. Kristinsdóttir og Ragnheiður Brynjólfsdóttir, formaður motocrossdeildarinnar undirrituðu samkomulagið. Ljósmynd/Aðsend

Sveitarfélagið Árborg og motocrossdeild Umf. Selfoss hafa gert samkomulag um að æfinga- og keppnisaðstaða deildarinnar færist á nýtt svæði í Bolaöldu í Ölfusi þegar nýr Suðurlandsvegur fer yfir núverandi aðstöðu deildarinnar í Hellislandi.

Motocrossdeildin hefur haft aðstöðu í hluta Hellislands frá árinu 2001 en frá upphafi var ljóst að svæðið væri víkjandi þegar kæmi að lagningu nýs Suðurlandsvegar. Deildin hefur á þessum árum byggt upp frábæra aðstöðu, að mestu leiti í sjálfboðavinnu, og varð svæðið eitt af betri mótokrossvæðum landsins.

Árið 2013 hófst samtal milli deildarinnar og sveitarfélagsins að finna nýja framtíðaraðstöðu innan sveitarfélagsins. Ýmsir möguleikar hafa verið skoðaðir en ekkert svæði fundist. Ekki voru því margir kostir í stöðunni fyrir deildina; leggja niður starfsemina, semja við aðra klúbba um aðstöðu eða finna annað svæði utan sveitarfélagsins.

Deildin hefur nú fengið afnot af aðstöðu hjá Vélhjólaíþróttaklúbbnum í Bolaöldu í Ölfusi, skammt frá Litlu kaffistofunni. Þar fær deildin eigin braut til afnota ásamt afnotum að öllu svæðinu. Aðstöðuhús og eignir deildarinnar verða flutt af núverandi svæði á Selfossi í Bolaöldu.

Í tilkynningu frá sveitarfélaginu segir að mikill ávinningur sé af þessum flutningum, í þeirri stöðu sem deildin er, en æfingatímabilið lengist til muna og skipulagðar æfingar verða frá miðjum maí, fram í miðjan september. Ásamt því að fá tilbúna braut, fæst aðgangur að beygjubraut og fleiru á svæðinu. Þá verður hægt að bjóða uppá enduronámskeið og aðgangur fæst að stærsta endurosvæði landsins. Í framtíðinni er stefnt að því að byggð verði upp 6.000 fm æfingaaðstaða fyrir akstur innanhúss.

Þrátt fyrir flutningana munu fulltrúar deildarinnar og sveitarfélagsins halda áfram að leita að að framtíðarstað fyrir starfsemina í sveitarfélaginu Árborg.

Fyrri greinHulda Dís framlengir á Selfossi
Næsta greinMölunarverksmiðja og hagsmunir íbúa