Moss fór á kostum í sigri á Blikum

Kvennalið Hamars vann góðan sigur á Breiðabliki í sveiflukenndum leik í Domino’s-deildinni í körfubolta í kvöld. Lokatölur urðu 75-69.

Hamar komst í 5-0 en þá tóku Blikar öll völd á vellinum og með 2-20 áhlaupi komust gestirnir í 16-31 í upphafi 2. leikhluta. Hvergerðingar voru hins vegar sterkari þegar leið á 2. fjórðung og minnkuðu muninn í þrjú stig fyrir leikhlé, 37-40.

Þriðji leikhlutinn var hnífjafn en um miðjan 4. leikhluta röðuðu Hvergerðingar niður þristunum og breyttu stöðunni úr 52-59 í 70-65. Þar með var björninn unninn og Breiðablik átti engin svör á síðustu mínútunum.

Sydnei Moss fór á kostum í liði Hamars, skoraði 32 stig, tók 10 fráköst, sendi 7 stoðsendingar og stal 5 boltum. Þórunn Bjarnadóttir skoraði 17 stig, Heiða Valdimarsdóttir 15, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 4 auk þess sem hún tók 10 fráköst, Vilborg Óttarsdóttir skoraði 3 stig og þær Sóley Guðgeirsdóttir og Helga Vala Ingvarsdóttir 2 auk þess sem Sóley tók 11 fráköst.

Hamar er nú í nokkuð góðum málum í 6. sæti deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir, með 12 stig. Blikar eru á botninum með 4 stig.

Fyrri greinMagni smíðar brýr fyrir Þórsmörk
Næsta greinFer þessu ekki að linna?