Afturelding frá Mosfellsbæ tryggði sér í gærkvöldi titilinn Meistarar meistaranna í blaki þegar þeir heimsóttu Íslands- og bikarmeistara Hamars í Frystikistuna í Hveragerði.
Gestirnir byrjuðu mun betur og unnu fyrstu hrinuna 25-17. Hamarsmenn virtust þá vakna af blundinum og unnu næstu tvær hrinur örugglega 25-11 og 25-13.
Fjórða hrinan var aftur á móti jöfn og spennandi en Afturelding hafði frumkvæðið nánast alla hrinuna. Hamarsmenn náðu að jafna 22-22 en lengra náði það ekki og Afturelding vann 25-23 og knúði fram oddahrinu. Í fjórðu hrinum komust Hamarsmenn reyndar í 23-22 en mistök á ritaraborði urðu til þess að 23. stig Hamars var ekki skráð. Mistökin uppgötvuðust í stöðunni 24-24 en dómarinn fór eftir stöðu á ritaraborði frekar en flettispjaldi og tók eitt stig af Hamri, við lítinn fögnuð heimamanna.
Oddahrinan var hnífjöfn framan af. Afturelding náði tveggja stiga forystu 8-6 og eftir það var ekki aftur snúið. Afturelding vann oddinn örugglega 15-9 og leikinn þar með 3-2 og titillinn Meistari meistaranna því þeirra.
Stigahæstur í liði Hamars var Tomek Leik með 24 stig en hjá UMFA var Jakub Grzegolec með 15 stig.