Mörkunum rigndi í seinni hálfleik

Arilíus Óskarsson sækir að marki RB í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyringar léku sinn fyrsta heimaleik í 5. deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar RB kom í heimsókn.

Fyrri hálfleikur var markalaus og tíðindalítill en allt annað var uppi á teningnum í seinni hálfleik þar sem mörkunum rigndi.

RB fékk ódýra vítaspyrnu á 50. mínútu og gestirnir tvöfölduðu forskotið níu mínútum síðar með marki úr skyndisókn. Stokkseyringar lögðu ekki árar í bát, Gunnar Flosi Grétarsson minnkaði muninn skömmu síðar og á 70. mínútu nýtti Gunnar Bjarni Oddsson sér slæm mistök RB og jafnaði 2-2.

Bæði lið þreifuðu fyrir sér í framhaldinu en sóknir RB voru beittari og þeir skoruðu tvívegis með þriggja mínútna millibili, þegar um tíu mínútur lifðu leiks. Stokkseyringum tókst ekki að jafna aftur en þeir fengu vítaspyrnu í uppbótartímanum og úr henni skoraði Arilíus Óskarsson og rétti hlut Stokkseyringa.

Lokatölur urðu 3-4 og Stokkseyri er áfram án stiga á botni B-riðils 5. deildarinnar.

Fyrri greinEnginn bilbugur á Selfosskonum – Harpa bætist í hópinn
Næsta greinDímonarkeppendur sigursælir á blakmóti