Mörkin létu á sér standa í lokin

Selfoss varð af mikilvægum stigum í 1. deild kvenna í handbolta í kvöld þegar liðið tapaði 28-36 gegn ÍR á heimavelli í Iðu.

ÍR tók frumkvæðið í leiknum fljótlega og leiddi með tveimur mörkum lengst af. Staðan í hálfleik var 16-19. Munurinn hélst svipaður stærstan hluta seinni hálfleiksins. Þegar rúmar tuttugu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik var staðan 27-29 en þá hrundi sóknarleikur Selfoss sem skoraði aðeins eitt mark á síðustu átta mínútunum. ÍR gekk á lagið og vann að lokum átta marka sigur.

Það var skarð fyrir skildi hjá Selfyssingum að bæði Tinna Sigurrós Traustadóttir og markvörðurinn Mina Mandic eru meiddar og fylgdust með leiknum úr stúkunni.

Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir var markahæst Selfyssinga með 6 mörk, Rakel Hlynsdóttir og Inga Sól Björnsdóttir skoruðu 5, Emilía Ýr Kjartansdóttir, Roberta Strope og Tinna Soffía Traustadóttir 3, Kristín Una Hólmarsdóttir 2 og Hugrún Tinna Róbertsdóttir 1.

Selfoss er áfram í 2. sæti deildarinnar með 4 stig en liðin fyrir neðan eiga flest hver leiki til góða á Selfoss.

Fyrri greinAlefli bauð lægst í nýbyggingu RARIK
Næsta greinMilljarður á 30 sekúndum