Mörkin láta á sér standa

Unnur Dóra Bergsdóttir, fyrirliði Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss varð af dýrmætum stigum í Bestu deildinni í knattspyrnu í kvöld þegar liðið tapaði 2-0 gegn FH í botnbaráttu deildarinnar.

Það gekk hvorki né rak hjá Selfyssingum í fyrri hálfleik og FH komst yfir á 25. mínútu þegar Valgerður Valsdóttir skallaði boltann inn á fjærstöng eftir hornspyrnu.

Staðan var 1-0 í hálfleik en seinni hálfleikurinn var fjörugri og bæði lið fengu góð færi. Unnur Dóra Bergsdóttir átti stangarskot á 64. mínútu eftir góðan sprett Emelíu Óskarsdóttur og á 80. mínútu var Barbára Sól Gísladóttir hársbreidd frá því að skalla boltann inn úr dauðafæri en hitti ekki boltann.

Það reyndist Selfyssingum dýrt að nýta ekki sín fáu færi því á 81. mínútu komust FH-ingar í 2-0 eftir vel útfærða sókn og skalla frá Sara Montoro. Selfoss reyndi af veikum mætti að klóra í bakkann á lokamínútunum en tókst það ekki.

Selfyssingar sitja nú einir á botni Bestu deildarinnar með 4 stig en FH fór með sigrinum upp í 5. sætið með 10 stig.

Fyrri greinForeldrafélagið gaf Vallaskóla grill
Næsta greinStokkseyringar komnir á blað