„Mórallinn mjög góður“

Gintautas Matulis. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn vann sinn fyrsta sigur í Domino’s-deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðið fékk nágranna sína úr Grindavík í heimsókn. Lokatölur urðu 90-80.

„Ég er mjög ánægður með að ná sigri. Grindvíkingarnir hittu mjög vel í fyrri hálfleik þannig að ég er mjög sáttur með að hafa náð að landa þessu í lokin. Þetta var bara hörkuleikur og hrikalega ánægjulegt að klára þetta,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Þórs, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Þetta var fyrsti sigur Þórs í vetur, þannig að brúnin hlýtur að léttast aðeins á mönnum við þetta?

„Við erum reyndar búnir að spila ágætlega fram að þessu og það hefur vantað lítið upp á. Hver einasti leikur er erfiður, við getum tapað fyrir öllum og unnið alla. Þrátt fyrir þessa byrjun á mótinu þá er mórallinn mjög góður hjá okkur, en þessi sigur hann bara enn betri,“ sagði Baldur kátur að lokum.

Þórsarar frábærir í 4. leikhluta
Leikurinn var jafn í 1. leikhluta, Þórsarar höfðu frumkvæðið lengst af en Grindavík lauk leikhlutanum á 14-3 áhlaupi og leiddi 31-35 eftir tíu mínútna leik. Grindavík hélt forskotinu allan 2. leikhluta og staðan var 45-49 í leikhléi.

Gestirnir juku forskotið mest í átta stig í 3. leikhluta, 58-66, en Þór skoraði síðustu sex stigin í leikhlutanum og Emil Karel Einarsson lokaði honum á glæsilegum þrist til að jafna leikinn, 67-67, og var það vísirinn að því sem koma skyldi í frábærum 4. leikhluta hjá Þór.

Þórsarar skoruðu þrettán fyrstu stigin í 4. leikhluta og skyndilega var staðan orðin 80-67. Grindvíkingar guggnuðu og náðu sér ekki á strik en Þórsvörnin var frábær á lokakaflanum og hélt Grindavík í 13 stigum í 4. leikhluta. Lokatölur 90-80 og fyrsti sigur Þórs í vetur í höfn.

Matulis fór á kostum
Gintautas Matulis var frábær í liði Þórs í kvöld, skoraði 17 stig og tók 11 fráköst auk þess að fiska 7 villur. Nikolas Tomsick var stigahæstur Þórsara í kvöld með 24 stig og 7 stoðsendingar.

Kinu Rochford skoraði 14 stig en spilaði aðeins í rúmar 22 mínútur og var kominn í villuvandræði snemma leiks. Ragnar Örn Bragason skoraði 13 stig, Emil Karel Einarsson 10 og þeir Halldór Garðar Hermannsson og Davíð Arnar Ágústsson skoruðu báðir 6 stig.

Þórsarar eru í 8. sæti deildarinnar með 2 stig.

Fyrri greinFákasel opnar á ný
Næsta greinSundmannakláði í Landmannalaugum