Monaco skoðar Stefán betur

Selfyssingurinn Stefán Ragnar Guðlaugsson verður áfram við æfingar hjá franska úrvalsdeildarliðinu AS Monaco fram á föstudag í það minnsta.

Frökkunum líst vel á Stefán sem hefur æft með varaliði félagsins undanfarna daga. Að auki hefur hann leikið einn leik sem settur var upp innan félagsins og stóð sig með mikilli prýði. Annar leikur er fyrirhugaður á morgun.

Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfoss, er staddur í Frakklandi en heldur heimleiðis í dag, eftir krókaleiðum, gegnum Frakkland, Luxemburg og Þýskaland.

„Frakkarnir sýna Stefáni mikinn áhuga og hann hefur staðið sig vel á þessum reynslutíma. Ef eitthvað gerist í þessum málum veit maður ekki hvort það verður strax. Ég vona að hann leiki með okkur í sumar, við þurfum á honum að halda,“ sagði Guðmundur í samtali við sunnlenska.is, þar sem hann var að stíga upp í flugvél í Nice. „Þeir vilja skoða hann vel og það er mikið hrós fyrir hann. Eldgosið hefur reyndar sett strik í reikninginn því njósnarar félagsins eru fastir út um allar jarðir en þeir eru meðal þeirra sem þurfa að skoða Stefán.“

Stefán Ragnar er 19 ára gamall varnar- og miðjumaður en hann var fastamaður í liði Selfoss á síðasta keppnistímabili.

Fyrri greinSlóðavinir með fræðslufund
Næsta grein24 tíma heimferð Þóris