Mögnuð endurkoma Selfyssinga

Fyrsta mark leiksins kom úr óbeinni aukaspyrnu sem var heldur betur umdeild. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var mikil dramatík á Selfossvelli í kvöld þar sem heimamenn fengu Gróttu í heimsókn í 1. deild karla í knattspyrnu.

Það var hundleiðinlegt veður á Selfossvelli í kvöld, hávaða rok og leikmenn áttu erfitt með að hemja knöttinn. Leikurinn var tíðindalítill framan af en Selfyssingar fengu fyrsta færið þegar Hrvoje Tokic lét verja frá sér skalla af stuttu færi. Á 40. 

mínútu fóru hlutirnir að gerast þegar Grótta fékk óbeina aukaspyrnu innan vítateigs. Adam Örn Sveinbjörnsson renndi sér á boltann og Stefán Þór Ágústsson markvörður tók hann upp en dómarinn mat það svo að um sendingu á markmann hafi verið að ræða. Selfyssingar voru brjálaðir yfir dómnum og ekki urðu þeir hressari þegar Grótta skoraði úr aukaspyrnunni.

Fjórum mínútum síðar lenti Stefán Þór undir pressu og náði ekki að losa boltann og Gróttumenn skoruðu í tómt markið. Staðan var því 0-2 í hálfleik eftir þennan furðukafla á lokamínútunum.

Selfyssingar komu ákveðnir inn í seinni hálfleikinn en Grótta var á undan að skora og komst í 3-0 á 60. mínútu eftir snarpa sókn. Útlitið var virkilega svart fyrir heimamenn þarna en þeir lögðu ekki árar í bát og héldu áfram að sækja.

Á 64. mínútu minnkaði Hrvoje Tokic muninn þegar hann veiddi frákast af skoti frá Gary Martin. Sex mínútum síðar skoraði varamaðurinn Valdimar Jóhannsson glæsilegt mark eftir stoðsendingu frá Gary Martin og aðeins tveimur mínútum síðar var Valdimar aftur á ferðinni í vítateignum, þar sem hann var felldur og Selfyssingar fengu vítaspyrnu. Hrvoje Tokic fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Staðan því orðin 3-3 og ennþá korter eftir af leiknum en mörkin urðu ekki fleiri. Selfyssingar voru þó mun líklegri á lokakaflanum þar sem bæði Tokic og Martin fengu fín færi.

Selfyssingar lyftu sér upp í 8. sæti deildarinnar og hafa 4 stig en liðin fyrir neðan eiga leik til góða á þá.

Fyrri greinBjörgunarsveitir í óveðursútköllum
Næsta greinHrossastóði bjargað af sandeyri í Þjórsá