Mögnuð toppbarátta í 2. deildinni

Hamar féll úr toppsæti 2. deildar karla í knattspyrnu eftir 2-1 tap gegn Aftureldingu á Varmárvelli í kvöld.

Leikurinn fór rólega af stað og gerðist fátt markvert fyrr en á 11. mínútu þegar Haraldur Hróðmarsson kom Hamri yfir úr skyndisókn. Hamar var sterkari eftir markið en heimamenn voru þó nær því að skora en þeir áttu m.a. tvö sláarskot í sömu sókninni.

Staðan var 0-1 í hálfleik en í síðari hálfleik vann Afturelding sig betur inn í leikinn og jöfnuðu um miðjan hálfleikinn. Baráttan hélt áfram þangað til á 82. mínútu að Afturelding skoraði sigurmarkið þegar sóknarmaður þeirra slapp einn innfyrir vörn Hamars og kláraði færi sitt vel.

Eftir sigurmarkið fjaraði leikurinn út og Hamar situr nú í 2. sæti deildarinnar með 29 stig, einu stigi á eftir Hetti. Toppbaráttan í 2. deildinni er mögnuð en öll liðin í deildinni eiga möguleika efstu tveimur sætunum ef botnlið Árborgar og ÍH eru talin frá. Átta stig skilja að Hamar í 2. sæti og Völsung í 10. sæti.