Mjög góður árangur Sunnlendinga í Gautaborg

Gautaborgarleikarnir 2016 fóru fram um helgina og fór stór hópur frá frjálsíþróttadeild Selfoss til Svíþjóðar og tók þátt í leikunum, 28 keppendur ásamt hópi foreldra og þjálfara, alls 40 manns.

Mjög góður árangur náðist á mótinu og bættu margir sinn besta árangur. Dagur Fannar Einarsson setti HSK met í 800 m hlaupi, í flokki 14 ára, 2:14,60, en það met var orðið 34 ára gamalt. Einnig bætti Eva María Baldursdóttir HSK metið í þrístökki í flokki 13 ára, en hún stökk 10,93 m. Þá bætti Vilhelm Freyr Steindórsson HSK metið í sleggjukasti í flokki 14 ára, kastaði 38,15 m og bætti eldra met um heila tólf metra.

Hæst ber þó að nefna fimm verðlaunasæti sem Sunnlendingar náðu á mótinu.

Hákon Birkir Grétarsson vann til silfurverðlauna í 80 m grindahlaupi í flokki 14 ára, á nýju Íslandsmeti, 11,88 sek.

Helga Margrét Óskarsdóttir vann til gullverðlauna í spjótkasti í flokki 15 ára, kastaði 39,37 m. Kastað var 500 gr. spjóti í þessum flokki á mótinu en á Íslandi er kastað 400 gr. spjóti í þessum aldursflokki.

Vilhelm Freyr Steindórsson vann til bronsverðlauna í spjótkasti í flokki 14 ára, kastaði 43,17 m.

Tryggvi Þórisson vann til silfurverðlauna í hástökki, í flokki 14 ára, stökk 1,67 m.

Hildur Helga Einarsdóttir vann til bronsverðlauna í spjótkasti í flokki 14 ára, kastaði 37,59 m. Kastað var 500 gr. spjóti í þessum flokki á mótinu en á Íslandi er kastað 400 gr. spjóti í þessum aldursflokki.

Fyrri greinÞrír sunnlenskir afreksnemar hljóta afreksstyrk Háskóla Íslands
Næsta grein„Stutt síðan maður var að spila á Selfossi“